Viðskipti erlent

Lögreglurannsókn hafin á Goldman Sachs

Saksóknari á Manhattan í New York hefur fyrirskipað lögreglurannsókn á starfsháttum fjárfestingabankans Goldman Sachs.

Rannsóknin beinist að því hvort bankinn hafi brotið lög með starfsháttum við að selja viðskiptavinum sínum skuldavafninga sem byggðust á svokölluðum undirmálslánum í Bandaríkjunum fram á árið 2007.

Fjallað er um málið í flestum erlendum fjölmiðlum í morgun en á BBC segir að talsmenn Goldman Sachs séu ekki undrandi yfir þessari rannsókn í ljósi þess umtals sem bankinn hefur orðið fyrir að undanförnu.

Eins og áður hefur komið fram hefur bandaríska fjármálaeftirlitið höfðað einkamál gegn Goldman Sachs vegna fyrrgreindra vafninga. Í vikunni voru svo bankastjóri Goldman Sachs og nokkrir yfirmenn bankans grillaðir af bandarískri þingnefnd sökum málsins.

Samhliða því að selja viðskiptavinum sínum vafningana tók Goldman Sachs sjálfur skortstöður í þeim og veðjaði á að þeir myndu falla í verði sem og gerðist.

Eftir á að koma í ljós hvort lögreglurannsóknin á Manhattan leiði til ákæru en á BBC er þess getið að sönnunarbyrðin er meiri í þessari rannsókn en í máli bandaríska fjármálaeftirlitsins gagn bankanum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×