Viðskipti erlent

Bank of America tapaði 660 milljörðum

Stærsti banki Bandaríkjanna, Bank of America, tapaði 5,2 milljörðum dollara eða um 660 milljörðum kr. á síðasta ársfjórðungi í fyrra. Inni í þessu tapi eru endurgreiðslur á ríkisaðstoð þeirri sem bankinn hlaut á síðasta ári frá bandarískum stjórnvöldum.

Samkvæmt frétt um málið á Bloomberg fréttaveitunni nam tapið fyrir hluthafa bankans um 60 sentum á hlut og er það nokkuð hærra en sérfræðingar höfðu spáð eða 52 sentum á hlut. Ef endurgreiðslan á ríkisaðstoðinni er tekin frá nam tap bankans á ársfjórðungnum 194 milljónum dollara.

Með þessu hefur Bank of America tapað fé á þremur af síðustu fimm ársfjórðungum. Búist er við erfiðum rekstri áfram hjá bankanum sökum efnahagsástandsins vestan hafs. Bankinn starfar einkum á neytendamarkaði og hefur mikið atvinnuleysi meðal Bandaríkjamanna leitt til þess að bankinn hefur þurft að afskrifa mikið af lánum sínum til einstaklinga.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×