Viðskipti erlent

S&P ógnar Grikklandi með gjaldþrotseinkunn

Matsfyrirtækið Standard & Poor´s (S&P) hefur lækkað lánshæfiseinkunn Grikklands enn frekar niður í ruslið eða úr B og niður í CCC.  Jafnframt segir S&P að fyrirtækið muni líta á endurskipulagningu á skuldum Grikklands sem ígildi greiðslufalls og lækka einkunn sína í samræmi við það.

Í umfjöllun um málið á BBC segir að þrátt fyrir að Grikkir hafi tryggt sér áframhaldandi neyðaraðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Evrópusambandinu aukist væntingar um að endurskipulagning skulda landsins sé óhjákvæmileg. Þýskir og franskir bankar hafi í raun samþykkt að Grikkir fá að lengja í lánum sínum til að gefa landinu meiri tíma til að endurgreiða skuldir sínar.

Í kjölfar ákvörðunar S&P hafa hlutir í evrópskum bönkum lækkað í morgun. Í Bretlandi lækkaði verð á hlutum í Royal Bank of Scotland og Lloyds Banking Group um rúm 2%. Hlutir í frönsku bönkunum Credit Agricole og Societe Generale lækkuðu um 2% og hlutir í þýska bankanum Commerzbank um 1,7%.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×