Viðskipti erlent

Rússi gripinn við að smygla smjöri til Noregs

Norski tollurinn stoppaði Rússa með ólöglegt smjör á landamærunum við Svíþjóð í bænum Svinesund um helgina. Rússinn ætlaði að smygla 90 kílóum af smjöri til Noregs í flutningabíl sínum en komst ekki undan árvökulum augum norskra tollvarða.

Smjörkreppan í Noregi virðist ágerast eftir því sem nær dregur jólunum. Verðið á kílói af smjöri er komið í 800 norskar krónur eða rúmlega 16.000 krónur fyrir kílóið á netinu að því er segir í frétt í blaðinu Verndens Gang. Þar er jafnframt haft eftir kúabónda að hann hefði auðveldlega getað aukið framleiðslu sína á smjöri um 20% í ár ef sektir við slíku hefðu verið afnumdar, eins og raunar gert var í þessum mánuði.

Matvælaeftirlit Noregs hefur varað almenning þar í landi við því að kaupa smjör frá framleiðendum sem ekki eru þekktir í landinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×