Viðskipti erlent

Kínverjar draga úr álframleiðslu vegna verðlækkana

Kínverjar hafa dregið úr álframleiðslu sinni á þessu ár um eina milljón tonna og munu sennilega draga úr henni um 2 milljónir tonna fyrir árið 2015. Ástæðan er verðlækkanir á heimsmarkaðsverði á áli og sú staðreynd að um þriðjungur álvera í Kína er rekinn með tapi þessa stundina.

Í frétt Bloomberg fréttaveitunnar segir að Kínverjar, sem eru stærstu álframleiðendur heimsins, framleiða um 24 milljónir tonna af áli á þessu ári, eða um 43% af heimsframleiðslunni. Þótt þeir dragi úr framleiðslu sinni um 4 til 5 milljónir tonna á næstu 5 árum munu þeir samt eiga umframbirgðir af áli.

Það sem af eru þessu ári hefur heimsmarkaðsverð á áli lækkað um 10% á málmmarkaðinum í London (LME). Verðið stendur í 1.863 dollurum á tonnið m.v. þriggja mánaða framvirka samninga.

Verðið á markaðinum í Shanghai er mun hærra eða 2.368 dollarar á tonnið og hefur aðeins lækkað um 3,8% á árinu. Þrátt fyrir þetta háa verð er tap á rekstri um þriðjungs af álverum í Kína.

Fram kemur í fréttinni að um fjórðungur af álverum í Evrópu er rekinn með tapi vegna verðlækkana á árinu og hjá um 28% þeirra stendur reksturinn í járnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×