Viðskipti erlent

Íhuga að skipta RBS upp í góðan og slæman banka

Meðlimir breskrar þingnefndar sem kannað hafa stöðu og framtíð Royal Bank of Scotland (RBS) munu hafa íhugað þann möguleika að skipta RBS upp í góðan banka og slæman.

Þetta hefur Reuters eftir heimildum og raunar skrifar Robert Peston viðskiptaritstjóri BBC grein um málið í dag þar sem svipuð hugmynd kemur fram. Góði bankinn gæti þá aukið útlán sín til fyrirtækja og einstaklinga en ónýtar og lélegar eignir RBS yrðu skildar eftir í slæma bankanum.

Reiknað er með að fyrrgreind þingnefnd skili af sér um 600 síðna skýrslu um málið síðar í þessum mánuði. RBS er að hluta til í eigu hins opinbera eftir að bresk stjórnvöld neyddust til að leggja gífurlegar fjárhæðir í bankann til að forða honum frá falli þegar fjármálakreppan hófst árið 2008.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×