Viðskipti erlent

Fækkun kaupmála kemur við kaunin á dönskum konum

Kaupmálum milli hjóna í Danmörku hefur snarfækkað á síðustu árum en slíkt kemur aðallega við kaunin á konum, að því er segir í frétt á vefsíðu börsen. Konurnar séu í hættu á að þurfa að herða verulega sultarólar sínar einkum þegar kemur að ellinni.

Í fyrra voru gerðir tæplega 8.800 kaupmálar í Danmörku. Til samanburðar voru þeir tæplega 19.000 talsins árið 2006. Þetta kemur fram í úttekt á vegum Danica Pension. Jens Christian Nielsen aðalhagfræðingur hjá Danica Pension segir að þessi þróun veki áhyggjur.

„Vandamálið sem kemur upp við skilnað þegar kaupmáli er ekki til staðar er að annað hjónanna tekur til sín stærri hlut af lífeyrissparnaðinum,“ segir Nielsen. „Í raun þýðir þetta að þeir sem hafa það best fá lífeyrir sem endurspeglar líf þeirra fram að því en hinn aðilinn sér fram á líf í ellinni á öðru farrými með mun minni lífeyrisgreiðslur.“

Ástæðan fyrir þessu er lagabreyting sem gerð var árið 2007 en hún kvað á um að lífeyrissparnaði hjóna væri ekki skipt upp til helminga við skilnað heldur hélt hvort hjónanna um sig sínum sparnaði. Þetta kemur einkum niður á konum, að því er segir í úttekt Danica Pension.

„Í mörgum hjónaböndum er munur á tekjum karlsins og konunnar. Þetta á ekki aðeins við um almenn laun heldur einnig hluti eins og fæðingarorlof,“ segir Nielsen. „Munurinn kemur oft fram í lífeyrissparnaðinum þar sem annað hjónanna er með töluvert meiri sparnað en hitt.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×