Gagnrýni

Hvenær fremur maður glæp...?

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Glæpurinn - Ástarsaga eftir Árna Þórarinsson
Glæpurinn - Ástarsaga eftir Árna Þórarinsson
Bækur: Glæpurinn – Ástarsaga

Árni Þórarinsson

JPV-útgáfa



Glæpurinn – Ástarsaga markar tímamót á rithöfundarferli Árna Þórarinssonar. Hann hefur hingað til einbeitt sér að skrifum glæpasagna en rær hér, þrátt fyrir titil bókarinnar, á dýpri mið. Sagan gerist á einum sólarhring og lýsir lífi splundraðrar fjölskyldu í Reykjavík samtímans á nærfærinn og hlýjan hátt þótt aðstæður fjölskyldumeðlima séu vægast sagt ömurlegar. Meira er eiginlega ekki hægt að segja um efni eða persónur bókarinnar án þess að spilla upplifuninni fyrir væntanlegum lesendum sem setur rýninn hér í ansi þrönga stöðu.



Árni hefur í glæpasögum sínum leitast við að varpa ljósi á ýmislegt sem aflaga fer í borgarsamfélagi nútímans og hann bregður ekki út af þeim vana hér. Margar lýsingarnar eru virkilega sjokkerandi og grimmd manneskjanna hverrar í garð annarrar er nístandi. Langt er þó frá því að hér eigist við vondir kallar/kellingar og góðir/góðar, slíkar einfaldanir eru víðs fjarri og persónusköpun öll sannfærandi og vel gerð. Allar persónurnar eru að meira eða minna leyti fórnarlömb aðstæðna sem þær hafa enga stjórn á og Árni lýsir örvæntingunni og vanmættinum sem slík staða skapar listavel. Það er hjartalaus manneskja sem ekki finnur fyrir kekki í hálsi við lestur nöturlegustu kaflanna í Glæpnum.



Sagan öll hverfist um einn tiltekinn glæp, sem þó er í raun ekki glæpur, og siðferðisspurningarnar sem hér er varpað fram eru óvægnar og óróavekjandi. Hver sem er gæti verið í þessari stöðu og jafnvel ekki einu sinni haft hugmynd um það. En nú er ég enn og aftur farin að syndga upp á náðina með þögnina í kringum plott bókarinnar.

Árni hefur í síðustu bókum sínum verið að fága stíl sinn og byggingu sagnanna og sýnir hér hversu vel hann hefur spennuuppbyggingu á valdi sínu. Sagan er nefnilega þrælspennandi og erfitt að leggja hana frá sér fyrr en að lestri loknum. Smátt og smátt er upplýsingum miðlað til lesandans í örlitlum brotum, sjónarhornið færist frá einni persónu til annarrar, er oftast alviturs sögumanns en inn á milli er laumað fyrstupersónufrásögn einnar persónunnar af því sem raunverulega gerðist. Það er eldgömul og útslitin klisja að lesandanum renni kalt vatn milli skinns og hörunds við lestur en það er nákvæmlega það sem hér gerist þegar lesandinn loks áttar sig á því um hvað málið snýst. Virkilega glæsilega gert.

Niðurstaða: Geysivel fléttuð og spennandi saga úr íslenskum nútíma. Saga sem ýtir hressilega við lesandanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×