Handbolti

U-18 ára lið karla í handbolta á EM

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Einar Guðmundsson er þjálfari U-18 en hér er hann ásamt Ólafi Guðmundssyni
Einar Guðmundsson er þjálfari U-18 en hér er hann ásamt Ólafi Guðmundssyni mynd/vilhelm
Íslenska U-18 ára lið karla í handbolta tryggði sér í dag þátttökurétt í úrslitakeppni Evrópumóts landsliða undir 18 ára þegar liðið skellti Grikklandi 38-25 í Svíþjóð.

Liðið keppti um helgina í fjögurra liða riðli í Svíþjóð þar sem keppt var um tvö laus sæti á EM. Ísland tapaði fyrir Svíþjóð í fyrsta leik en vann Moldavíu örugglega í gær og lék hreinan úrslitaleik við Grikki í dag.

Íslenska liðið gerði út um leikinn í fyrri hálfleik með frábærum leik jafnt í vörn og sókn en Ísland var 13 mörkum yfir í hálfleik 22-9.

Ísland og Svíþjóð tryggðu sér því þátttökurétt á EM sem leikin verður í Póllandi í ágúst.

Selfyssingurinn Ómar Magnússon var markahæstur Íslands með 9 mörk í dag. Mosfellingurinn Birkir Benediktsson skoraði 6 mörk, Haukamaðurinn Leonharð Harðarsson 5 og FH-ingurinn Hlynur Bjarnason 4.

Einar Baldvin Baldvinsson Víkingi varði 10 skot og Haukamaðurinn Grétar Ari Guðjónsson 4.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×