Golf

Garcia tryggði sér sigur eftir þrjá bráðabana

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Spánverjinn Sergio Garcia vann dramatískan sigur á Katar Masters mótinu í golfi sem lauk eystra fyrir stundu.

Garcia spilaði þriðja og síðasta hringinn á 65 höggum eða sjö höggum undir pari sem sendi hann í bráðabana ásamt Finnanum Mikko Ilonen. Finninn spilaði hringinn í dag á sex höggum undir pari eða á 66 höggum.

Garcia lauk því leik á sextán höggum undir pari samanlagt en þrefaldan bráðabana þurfti til að skera úr um sigurvegara. Garcia bjargaði sér með frábæru höggi úr glompu í bráðabananum og hafði svo sigur er átjánda holan var leikin þriðja sinni.

Sigurinn var sérstaklega sætur fyrir Spánverjann sem komst afar nálægt því að vinna mótið í fyrra. Allt stefndi í sigur hans þar til Chris Wood nældi í örn á lokaholunni og tryggði sér sigur.

Daninn Thorbjörn Olesen spilaði hringinn í dag á 68 höggum eða fjórum undir pari. Hann lauk leik samanlagt á 15 undir pari.

Mótið var í beinni útsendingu á Golfstöðinni. Ríkharð Óskar Guðnason lýsti mótinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×