Viðskipti erlent

Mótfallinn umhverfisstefnu Apple? Seldu þá hlutabréfin þín

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Tim Cook, forstjóri Apple.
Tim Cook, forstjóri Apple. vísir/afp
Tim Cook, forstjóri Apple, hvetur þá hluthafa sem eru andsnúnir umhverfisstefnu fyrirtækisins til að selja hlutabréf sín. Þetta kom fram á árlegum hluthafafundi Apple um helgina.

Svaraði hann þar með forvarsmönnum íhaldssamrar hugveitu á fundinum sem mótmæltu aukinni áherslu fyrirtækisins á endurnýjanlega orku. Lögðu þeir til að Apple ætti að berjast gegn auknum afskiptum yfirvalda og þrýstihópa af framleiðslunni.

Cook svaraði því á þá vegu að fyrirtækið léti ekki einungis stjórnast af gróðasjónarmiðum. „Við viljum skilja við jörðina í betra ásigkomulagi en þegar við komum að henni,“ sagði Cook.

Tillaga hugveitunnar hlaut ekki brautargengi meðal hluthafa og greiddu þeir atkvæði gegn henni. Cook bætti þá um betur og sagði: „Þeir sem eru mótfallnir stefnu fyrirtækisins í umhverfismálum geta þá bara selt hlutabréf sín.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×