Golf

Rory McIlroy sigraði á BMW PGA meistaramótinu eftir frábæran lokahring

McIlroy sigraði á sínu fyrsta móti á tímabilinu í dag.
McIlroy sigraði á sínu fyrsta móti á tímabilinu í dag. AP/Getty
Rory McIlroy sigraði á BMW PGA meistaramótinu á ævintýralegan hátt í dag en Norður-Írinn ungi vann upp sjö högga forystu Danans Thomas Björn á lokahringnum. McIlroy var átta höggum undir pari fyrir lokahringinn sem hann lék Wentworth völlinn á 66 höggum eða sex undir pari og endaði hann því á 14 höggum undir pari í heildina. Björn hafði leitt mótið frá fyrsta hring og hóf daginn á 15 höggum undir en hann fann sig alls ekki í dag, lék á 75 höggum eða þremur yfir pari og endaði því mótið á 12 höggum undir pari.

Hann endaði jafn í þriðja sæti ásamt Luke Donald en Írinn Shane Lowry krækti í annað sætið eftir hring upp á 68 högg í dag.

Sigurinn hjá McIlroy í dag er hans fyrsti á tímabilinu en hann hefur átt erfitt uppdráttar í einkalífinu að undanförnu eftir að flosnaði upp úr sambandi hans við dönsku tenniskonuna Caroline Wozniacki. Það virðist þó ekki hafa haft slæm áhrif á leik hans en McIlroy lék frábært golf alla helgina og gæti hæglega verið að nálgast sitt besta form nú þegar US Open nálgast óðfluga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×