Innlent

Yfirferð á reynslu af rannsóknarnefndum þingsins að ljúka

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Einar tók við rannsóknarskýrslu á síðasta ári um aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna.
Einar tók við rannsóknarskýrslu á síðasta ári um aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna. Vísir/GVA
Forsætisnefnd Alþingis er búin að safna saman flestum þeim gögnum sem nefndin telur sig þurfa til að meta reynslu rannsóknarnefnda þingsins síðustu ár. Til stendur að klára vinnu við að meta reynsluna fyrir vorið. Þetta segir Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis.

„Við erum að því og funduðum um þetta lauslega á síðasta fundi forsætisnefndar og ég á von á því að við höldum því áfram. Við höfum verið að taka saman mikil gögn um þetta sem núna liggja að miklu leiti fyrir. Ég vonast til þess að við getum lokið þessu vel fyrir vorið,“ segir Einar.

Stefnt hefur verið að því um nokkurn tíma að meta umgjörð rannsóknarnefnda á vegum þingsins en þrjár slíkar nefndir hafa starfað síðustu ár; rannsóknarnefnd Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008, rannsóknarnefnd Alþingis um Íbúðalánasjóð og rannsóknarnefnd Alþingis um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna.

Ástæðan fyrir því er einna helst langur rannsóknartími og sú staðreynd að nefndir hafa farið langt framúr fjárheimildum.

Einar segist gera ráð fyrir því að vinnu forsætisnefndar ljúki með frumvarpi til breytinga á lögum um rannsóknarnefndir. „Ég geri ráð fyrir því að þessi vinna sem við erum að vinna í muni að lokum leiða til lagabreytinga en ég get þó ekki alveg fullyrt um það, en ég geri þó ráð fyrir því,“ segir hann.

Má þá búast við því að ráðist verði í hina margumtöluðu rannsókn á einkavæðingu bankanna? „Þá minnsta kosti förum við að velta fyrir okkur framhaldinu með rannsóknarnefndirnar,“ svarar Einar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×