Innlent

Vill að ráðherra svari hversu margir læknar eru á bak við hvert ársverk

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Jón Þór hefur lagt fram fyrirspurn í þremur liðum til heilbrigðisráðherra.
Jón Þór hefur lagt fram fyrirspurn í þremur liðum til heilbrigðisráðherra. Vísir/Ernir/Vilhelm
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, vill að Kristján Þór Júlíusson upplýsi hversu margir læknar standa á bak við þau 569 ársverk sem tilgreind eru í samantekt fjármála- og efnahagsráðuneytisins um launagreiðslur til lækna frá því í desember.

Þetta er meðal spurninga sem hann hefur lagt fyrir ráðherrann á Alþingi. Þingmaðurinn spyr ráðherrann einnig hvert sé hlutfall grunnlauna af meðalheildartekjum lækna á Landspítala og hver sé meðalvaktabyrði lækna umfram átta tíma vinnudag.

Samantekt fjármála- og efnahagsráðuneytisins var birt í miðjum kjaradeildum lækna við ríkið. Í samantektinni voru birt meðallaun allra lækna á launaskrá ríkisins, að skurðlæknum undanskildum. Inni í tölunum voru dagvinnulaun, yfirvinnulaun, vaktaálag, stjórnunarálag, helgunarálag, menntunarálag og fleira.

Samkvæmt samantekinni voru meðallaunin árið 2013 1.126.292 krónur á mánuði. Þar sagði einnig að á bak við tölurnar væru 569 ársverk. Ekkert kom hinsvegar fram um fjölda lækna á bak við ársverkin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×