Innlent

Nokkur þúsund mótmælendur söfnuðust saman

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Áætlað er að um átta þúsund manns hafi safnast saman á Austurvelli í dag til að mótmæla aðgerðum ríkisstjórnar í Evrópusambandsmálum. Í myndbandi sem skipuleggjendur mótmælanna létu taka úr dróna, ómönnuðu loftfari, yfir Austurvelli sést fjöldinn glögglega. 

Á fundinum tóku fjórir ræðumenn til máls; þau Illugi Jökulsson rithöfundur, Jóna Sólveig Elínardóttir alþjóðastjórnmálafræðingur, Jórunn Frímannsdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi og Guðrún Pétursdóttir lífeðlisfræðingur. Auk þess komu tónlistarmennirnir KK og Hemúllinn fram.

Jóna Sólveig sagði í ræðu sinni að málið snérist ekki um aðild að sambandinu. „Meðferð ríkisstjórnarinnar á aðildarumsóknarmálinu, eins og hún birtist okkur síðastliðna daga, snýst ekki um aðild að Evrópusambandinu. Hún snýst um virðingu - virðingu fyrir lýðræði og þingræði á Íslandi. Ríkisstjórnin hefur vanvirt þing og þjóð,“ sagði hún og hvatti þingmenn til að verja þingræðið í landinu. 

Illugi sagði að ekki mætti leyfa ríkisstjórninni að komast upp með að taka völd af þinginu. „Hvaða skoðun sem við höfum á framtíðarskrefum þjóðarinnar, þá getum við ekki látið svona vinnubrögð líðast, því þá dimmir við dyrin, og lýðræðið í landinu er komið flensu, og lýðræðisflensa, hún getur endað með ósköpum, það er hin sára reynsla annarra þjóða, svo gætum okkar, hreinsum til, látum ekki vaða yfir okkur og læsa okkur inni, opnum allar dyr uppá gátt, því ríkisstjórn sem virðir ekki fulltrúasamkundu þjóðarinnar, Alþingi, hrifsar þar með til sín völd sem henni eru ekki ætluð,“ sagði hann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×