Innlent

Háskólaráð: Rektor ekki vanhæf til að fjalla um mál tengd rektorskjöri

Atli Ísleifsson skrifar
Einar Steingrímsson, Guðrún Nordal og Jón Atli Benediktsson eru í framboði til rektors.
Einar Steingrímsson, Guðrún Nordal og Jón Atli Benediktsson eru í framboði til rektors. Vísir/Ernir
Háskólaráð hefur einróma komist að þeirri niðurstöðu að rektor sé ekki vanhæf til að fjalla um mál tengd rektorskjörinu.

Í tilkynningu frá ráðinu segir að greint hafi verið frá því í fjölmiðlum að kvörtun hafi borist umboðsmanni Alþingis vegna meints vanhæfis rektors Háskóla Íslands til að fjalla um mál sem tengjast rektorskjöri vegna tengsla við aðstoðarrektor sem er einn umsækjenda.

„Háskólaráð fjallaði um málið 5. mars síðastliðinn og komst einróma að þeirri niðurstöðu að rektor væri ekki vanhæf til að fjalla um mál tengd rektorskjörinu. Rektor vék af fundi fyrir þá umfjöllun.

Umboðsmaður óskaði eftir rökstuðningi háskólaráðs fyrir ákvörðun sinni og hefur ráðið svarað honum. Í svari ráðsins kemur fram að til að gæta hlutleysis hafi verið aflað tveggja álitsgerða utanaðkomandi lögfræðinga vegna málsins fyrir umræddan fund. Niðurstaða þeirra er samhljóða um að samstarf á vinnustað valdi almennt ekki vanhæfi í skilningi stjórnsýslulaga. Á hinn bóginn kunni náin vinátta starfsmanna að valda vanhæfi. Við mat á því er m.a. lögð áhersla á umgengni í frítíma og náin samskipti utan vinnustaðar. Þar sem tengsl rektors og aðstoðarrektors byggjast eingöngu á samstarfi þeirra og stöðu við Háskóla Íslands komst háskólaráð, eins og áður segir, að þeirri niðurstöðu að rektor hafi ekki verið vanhæf til að fjalla um mál tengd rektorskjörinu.

Rétt er að fram komi að hlutverk háskólaráðs við undirbúning rektorskjörs samkvæmt reglum háskólans er formlegs eðlis og felst einkum í undirbúningi auglýsingar um embættið, staðfestingu á embættisgengi umsækjenda og skipun kjörstjórnar. Þegar umsóknarfrestur er liðinn tekur kjörstjórn almennt við meðferð mála sem lúta að rektorskjörinu,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×