Innlent

Ráðherra sagður magalenda í húsnæðismálunum: Eygló neitar að draga frumvörpin til baka

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra segir það rangt að frumvörp hennar hafi verið dregin til baka.
Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra segir það rangt að frumvörp hennar hafi verið dregin til baka. Vísir/Ernir
Fjármálaráðuneytið hefur undanfarnar sjö vikur haft til umsagnar frumvörp Eyglóar Harðardóttur félagsmálaráðherra um húsnæðisbætur og um stofnframlög vegna félagslegra íbúða. Ráðuneytið lýsti því síðan óvænt yfir í gær að frumvörpin hefðu verið dregin til baka. Eygló brást skjótt við og sagði þetta rangt.

Hún segir að fjármálaráðuneytið hefði vissulega óskað eftir því að hún drægi frumvörpin til baka en hún hefði ekki orðið við því. Hún útilokar ekki að gera breytingar á frumvarpinu í tengslum við kjaraviðræður og koma til móts við þær breytingar sem fulltrúar launþega þeir vilji gera en þar sé einkum horft til fólks með lægstu launin.. Að öðrum kosti verði þau lögð fram óbreytt og því sé mikilvægt að ljúka við kostnaðargreininguna í ráðuneytinu.

Kosningaloforð orðin skiptimynt

Hávær orðrómur hefur verið um ágreining milli stjórnarflokkanna og fullyrt að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki viljað veita málunum brautargengi. Mikla athygli vakti þegar ráðherra sendi orkustangir í fjármálaráðuneytið til að flýta fyrir kostnaðargreiningu.

„Ég hef einfaldlega óskað eftir því að ráðuneytið kostnaðarmeti þessi frumvörp, síðan mun ég leggja þau fyrir ríkisstjórn. Vonandi fá þau brautargengi þar og síðan í þinginu,“ segir Eygló.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis, segir að félagsmálaráðherra sé að magalenda í húsnæðismálunum. Hún hafi notað mikinn tíma, sinn eigin og fjölda annarra, til að móta stefnu í húsnæðismálum. Stefnu sem nú sé komið í ljós að ríkisstjórnin styðji ekki.

„Sjálfstæðisflokkurinn er kominn með kosningaloforð Framsóknarflokksins og ætlar að nota þau sem skiptimynt í kjaraviðræðum og ætlar að hafa það eftir sínu höfði hver niðurstaðan verður,“ segir Sigríður Ingibjörg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×