Innlent

Rann­sóknar­fram­lög til há­skóla verði betur skil­greind í fjár­lögum

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Sveinn Arason, ríkisendurskoðandi
Sveinn Arason, ríkisendurskoðandi vísir/vilhelm
Ríkisendurskoðun hefur skilað til Alþingis eftirfylgnisskýrslu í kjölfar skýrslunnar Rannsóknarframlög til háskóla sem stofnunin sendi frá sér árið 2012. Í nýju skýrslunni áréttar stofnunin þá niðurstöðu sína að mikilvægt sé að rannsóknarframlög til háskólanna verði betur skilgreind í fjárlögum. Skólarnir verði að halda sérstaklega utan um það hvernig féð sé nýtt.

Í skýrslunni frá árinu 2012 voru sex ábendingar sem Ríkisendurskoðun lagði til að yrðu lagfærðar. Ein þessara sex ábendinga var áréttuð en stofnunin telur að úrbætur hafi verið gerðar tengt hinum fimm.

Stofnunin telur að mennta- og menningarmálaráðuneytið hafi brugðist við af fullnægjandi hætti við þeim ábendingum sem sneru að fyrirkomulagi fjárveitinga, stefnumörkun og eftirliti, sameiginlegu matskerfi, endurnýjunum samninga við háskóla og að gefa þyrfti rannsóknum aukið vægi í starfsemi gæðaráðs.

Í eldri skýrslunni var leitast við að svara því hversu miklu fjármagni íslensk stjórnvöld verðu árlega til að styðja við rannsóknir íslenskra háskóla, hvernig eftirliti með meðferð fjársins væri háttað og hvort núverandi fyrirkomulag stuðlaði að gagnsæi og hagkvæmri nýtingu fjármunanna.

Niðurstaðan þá var sú að fjármögnun rannsóknanna væri flókin og ógagnsæ og afar erfitt væri að tilgreina hve miklu fé ríkið verði árlega til þeirra. Á fjárlögum eru framlögin skilgreind sem „rannsóknir og annað“ og skólarnir gætu ráðstafað örlítið hvernig fénu er ráðstafað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×