Innlent

Segir ríkisstjórnina halda „rassvasabókhald“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar.
Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar. vísir/valli
Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, sagði ríkisstjórnina halda „rassvasabókhald“ á Alþingi í dag. Vísaði hún þar í fréttir þess efnis í gær að stjórnvöld hygðust veita 850 milljónum króna í uppbyggingu ferðamannastaða og 1,8 milljörðum í vegaframkvæmdir á þessu ári en fjárveitingarnar voru ekki á fjárlögum þessa árs. Þarf því að setja þær á fjáraukalög.

Þingmaðurinn furðaði sig á viðbrögðunum við fjárveitingunum.

 „Þessu er deilt á Facebook og sett í fréttir eins og þetta sé alveg stórkostlegt og að ríkisstjórnin sé að gera stórkostlega hluti. Það hefur legið fyrir lengi að það þarf að fara í uppbyggingu ferðamannastaða og reyndar fékk framkvæmdasjóður ferðamannastaða 500 milljónir króna á fjárlögum 2013.“

Brynhildur sagði svo núverandi ríkisstjórn hafa dregið verulega úr þessum fjárframlögum. Á seinasta ári hafi 260 milljónir verið á fjárlögum en það hafi ekki dugað og því þurfti að setja 400 milljónir til viðbótar á fjáraukalög.

„Fjáraukalög eru ekki til að framkvæma verkefni sem stjórnvöld vanáætla. Þetta er rassvasabókhald og þetta er ólíðandi. Ég skil ekki að fólk sé út um allan bæ að hrópa húrra fyrir ríkisstjórninni að setja peninga í vegamál og uppbyggingu á ferðamannastöðum. Það hefur alltaf legið fyrir að þetta þarf að gera.“

Þingmaðurinn kallaði svo eftir vönduðum vinnubrögðum og að meirihlutinn og fjármálaráðherra læsu nefndarálit minnihlutans vegna fjárlaga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×