Innlent

Ríkisendurskoðun: Finna þarf lausn á rekstrarvanda Lyfjastofnunar

Atli Ísleifsson skrifar
Í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að Lyfjastofnun hefur verið rekin með afgangi frá árinu 2010.
Í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að Lyfjastofnun hefur verið rekin með afgangi frá árinu 2010. Vísir/GVA
Ríkisendurskoðun hvetur velferðarráðuneytið til að beita sér fyrir því að rekstrarvandi Lyfjastofnunar verði leystur, auk þess að komið verði til móts við stofnunina vegna kostnaðar sem hún ber af lögbundnum stjórnsýsluverkefnum.

Í frétt á heimasíðu stofnunarinnar segir að árið 2009 hafi Ríkisendurskoðun beint nokkrum ábendingum til Lyfjastofnunar og heilbrigðisyfirvalda sem tengdust fjárhag og starfsemi stofnunarinnar.

„Árið 2012 ítrekaði Ríkisendurskoðun hluta þessara ábendinga og setti fram tvær nýjar. Þar voru velferðarráðuneytið og Lyfjastofnun hvött til að tryggja að rekstur stofnunarinnar væri jafnan í samræmi við fjárheimildir. Þá var ráðuneytið hvatt til að meta kostnað vegna lögbundinna stjórnsýsluverkefna Lyfjastofnunar, sem hún fékk ekki greitt fyrir, og gera ráð fyrir honum í fjárlögum. Eins þyrfti það að finna varanlega lausn á rekstrarvanda og uppsöfnuðum halla stofnunarinnar. Loks var Lyfjastofnun hvött til að efla eftirlitsstörf sín.

Í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að Lyfjastofnun hefur verið rekin með afgangi frá árinu 2010. Fjárhagsstaða hennar hefur því styrkst talsvert á síðustu árum. Enn býr hún þó við uppsafnaðan halla fyrri ára. Ríkisendurskoðun telur því rétt að ítreka tvær ábendinga sinna frá árinu 2012. Annars vegar er velferðarráðuneytið hvatt til að beita sér fyrir því að rekstrarvandi Lyfjastofnunar verði leystur til frambúðar. Þetta verði meðal annars gert með því að Alþingi heimili stofnuninni að nota bundið eigið fé sitt til að jafna uppsafnaðan rekstrarhalla sinn. Hins vegar beiti ráðuneytið sér fyrir því að Alþingi komi í fjárlögum til móts við Lyfjastofnun vegna lögbundinna stjórnsýsluverkefna hennar sem hún hefur ekki fengið greitt sérstaklega fyrir,“ segir í fréttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×