Innlent

Ísland skilar áliti til EFTA vegna Icesave

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Birgir Ármannsson er formaður utanríkismálanefndar Alþingis.
Birgir Ármannsson er formaður utanríkismálanefndar Alþingis. Vísir/Stefán
Íslenska ríkið ætlar að skila inn greinargerð með sjónarmiðum sínum til EFTA-dómstólsins vegna þriggja spurninga sem bresk og hollensk stjórnvöld hafa fengið að leggja fyrir dóminn vegna Icesave-málsins. Utanríkismálanefnd þingsins fundaði í dag með embættismönnum tveggja ráðuneyta vegna málsins.

Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar, segir að ákvörðun hafi verið tekin um að senda inn greinargerð með sjónarmiðum Íslands í málinu sem höfðað hefur verið á hendur Tryggingasjóð innistæðueigenda vegna Icesave-krafna Breta og Hollendinga. Fundað var um málið í morgun.

„Það hefur verið ákveðið að íslenska ríkið sendi inn greinargerð í málinu. Það er ekki málsaðili en hefur rétt til þess að senda inn greinargerð. Tilgangurinn fundarins í morgun var fyrst og fremst að fá upplýsingar frá embættismönnum ráðuneytanna um hvernig þeirri vinnu miðaði,“ segir Birgir.

Spurningarnar sem lagðar hafa verið fyrir dóminn snúa að því hvort tilhögun Tryggingasjóðs innistæðueigenda standist EES-samninginn. Íslenska ríkið er ekki aðili að málinu en Birgir segir mikilvægt að sjónarmið ríkisins komi fram við afgreiðslu dómstólsins á spurningunum.

„Þarna er verið að ræða svolítið aðra stöðu en í dómsmálinu frægu fyrir EFTA-dómstólnum sem snérist fyrst og fremst um samningsbrot íslenska ríkisins því þarna er varnaraðilinn sjálfstæður sjóður sem liggur fyrir að ríkið er ekki í ábyrgð fyrir. Það er hins vegar ljóst að það getur skipt máli fyrir framtíðarfyrirkomulag innistæðutrygginga á Íslandi hvernig niðurstaða þessa máls fer,“ segir Birgir.

Ekki liggur fyrir hvenær svör við spurningunum koma frá EFTA-dómstólnum en fyrr í vikunni sagði framkvæmdastjóri tryggingasjóðs innistæðueigenda að ekki væri gert ráð fyrir að málflutningur fyrir héraðsdómi vegna málsins hæfist fyrr en að loknu sumarleyfi.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×