Handbolti

Grótta missir Karólínu í sænsku B-deildina

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Karólína er gríðarlega öflug í hraðaupphlaupum.
Karólína er gríðarlega öflug í hraðaupphlaupum. vísir/vilhelm
Íslands- og bikarmeistarar Gróttu þurfa að finna sér nýjan hægri hornamann í stað Karólínu Bæhrenz Lárudóttur sem er genginn í raðir sænska liðsins Boden Handboll. Þetta kemur fram á Facebook-síðu félagsins.

Boden leikur í næstefstu deild í Svíþjóð en liðið endaði í 8. sæti af 12 liðum á síðasta tímabili.

Karólína varð Íslands- og bikarmeistari með Gróttu í fyrra en hún sneri aftur á Seltjarnarnesið fyrir síðasta tímabil eftir nokkurra ára dvöl í Val. Hún hefur fimm sinnum orðið Íslandsmeistari á síðustu sex árum, fjórum sinnum með Val og einu sinni með Gróttu.

Karólína skoraði 105 mörk í 22 deildarleikjum í vetur og bætti 38 mörkum við í úrslitakeppninni. Hún missti þó af stórum hluta af úrslitaeinvíginu gegn Stjörnunni vegna meiðsla aftan í læri.

Karólína hefur leikið 20 A-landsleiki og skorað í þeim 13 mörk.


Tengdar fréttir

Fyrirliðinn áfram á Nesinu

Laufey Ásta Guðmundsdóttir hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við handknattleiksdeild Gróttu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×