Handbolti

Fimmtán ára hetja Gróttuliðsins skrifaði undir nýjan samning

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lovísa Thompson.
Lovísa Thompson. Mynd/Hkd Gróttu/Eyjólfur Garðarsson
Lovísa Thompson hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við Íslands- og bikarmeistara Gróttu og verður því með Seltjarnarnesliðinu í titilvörninni á komandi tímabili.

Lovísa er aðeins fimmtán ára gömul en var í stóru hlutverki á síðasta tímabili þegar Gróttu-liðið vann tvo fyrstu stóru titla félagsins.

Lovísa gerði gott betur en að skila stóru hlutverki því hún skoraði sigurmarkið í leiknum sem tryggði Gróttu Íslandsmeistaratitilinn í lokaúrslitunum á móti Stjörnunni.

Lovísa er mjög fjölhæfur leikmaður og býr yfir mikilli snerpu. Hún getur leikið allar stöður á leikvellinum en hefur nýst Gróttuliðunum best í skyttustöðunum beggja megin.

Lovísa er nýgengin upp í 3. flokk kvenna hjá Gróttu en hefur samt þegar náð því að leika rúmlega 50 leiki fyrir meistaraflokk félagsins.

Gróttuliðið hefur framlengt samninga við nær alla lykilleikmenn liðsins auk þess að styrkja sig með landsliðskonunum Unni Ómarsdóttur og Þóreyju Önnu Ásgeirsdóttur í sitthvort hornið. Gróttan mun því örugglega áfram berjast um titlana á komandi tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×