Viðskipti erlent

Mikill niðurskurður yfirvofandi hjá BBC

Sæunn Gísladóttir skrifar
BBC þarf að skera niður um 30 milljarða króna fyrir lok árs.
BBC þarf að skera niður um 30 milljarða króna fyrir lok árs. Vísir/EPA
Mikill niðurskurður er yfirvofandi hjá breska ríkisútvarpinu, BBC. Stofnunin þarf að skera niður um 150 milljónir punda, jafnvirði 30 milljarða íslenskra króna, fyrir lok árs, áður en lokaviðræður um fjármögnun fara fram.

BBC mun skera sérstaklega niður á veffréttamiðli sínum og í íþróttadeildinni. Stofnunin mun þó halda loforði sínu um að auka fjármagn til sjónvarpsdagskrárgerðar, segir í frétt Guardian um málið.

Talið er að 35 milljóna punda, sjö milljarða íslenskra króna, niðurskurður muni vera í formi sýningarrétts á íþróttastöðvunum. BBC hefur átt í erfiðleikum undanfarið við að keppa við Sky og BT um sýningu íþróttaviðburða og óttast nú margir að ókeypis sýningar af vinsælum íþróttaviðburðum munu heyra sögunni til. BBC mun ekki sýna frá Ólympíuleikunum frá og með árinu 2022, en mun hins vegar halda áfram að sýna frá Wimbledon.

Í júní var tilkynnt um þúsund manna niðurskurð og er talið að hann muni einnig hagræða um 50 milljónir punda, tíu milljarða íslenskra króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×