Menning

Mikil frumsköpun í Frystiklefanum

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
„Fróðá er áleitin og krefj­andi sýning þar sem þessi magnaða saga er skoðuð út frá áður ókönnuðum vinkli og ætti ekki að láta neinn ósnortinn,“ segir Kári.
„Fróðá er áleitin og krefj­andi sýning þar sem þessi magnaða saga er skoðuð út frá áður ókönnuðum vinkli og ætti ekki að láta neinn ósnortinn,“ segir Kári. Mynd/Úr einkasafni
„Sýningin er innblásin af draugasögu sem gerðist hér vestur á Snæfellsnesi fyrir þúsund árum, sögunni um Fróðárundrin. Við höfum fyllt í eyðurnar og búið til okkar eigin hrylling,“ segir Kári Viðarsson, leikhússtjóri Frystiklefans á Rifi, um Fróðá, verk sem frumsýnt verður þar á morgun.

Hann er þar ábyrgur fyrir handriti, leikstjórn, sviðsmynd og framleiðslu og segir verkið spennandi enda efniviðinn frábæran.

„En það er búið að vera mikið púsluspil að setja saman heila sýningu úr svona stuttri sögu, mikil frumsköpun í gangi til að allt rími saman þannig að úr verði upplifun,“ tekur hann fram.

Fimm manna hópurinn sem stendur að sýningunni kemur úr ólíkum áttum eins og Kári lýsir.

„Við erum með kvikmyndagerðarmanninn Rhys Votano frá Ástralíu sem er í raun eins og einn leikenda í sýningunni þó hann sé bak við tjöldin. Líka Allison Osberg, leikkonu frá Bandaríkjunum sem vinnur með brúður og grímur og sá sem semur tónlistina er Eirik Böen Gravdal frá Noregi. Auk þess eru íslenska leikkonan Aldís Davíðsdóttir og ég.

Við höfum reynt að finna okkar eigið tungumál og Fróðá nær skemmtilega út fyrir boxið því í sýningunni mætast margir miðlar.“

Kári segir miðasöluna ganga vel.

„Það lítur út fyrir að við verðum með sýningar nánast á hverjum degi á meðan við getum haldið listamönnunum á svæðinu,“ segir Kári en lokasýning verður 19. desember svo þetta verður sprengur í tvær vikur.

Hann kveðst lukkulegur með að hafa fengið þátttakendurna til sín, jafnvel úr fjarlægum heimsálfum. „Ég er rosalega þakklátur fyrir að fólk skuli gefa sér tíma til vera á Rifi í tvo mánuði og taka þátt í því sem ég er að gera.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×