Menning

Hin litríku líparítfjöll í Kærleikskúlunni

Magnús Guðmundsson skrifar
Ragna Róbertsdóttir myndlistarkona með Kærleikskúlu SLF þessi jólin.
Ragna Róbertsdóttir myndlistarkona með Kærleikskúlu SLF þessi jólin.
Allt frá árinu 2003 hefur Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra staðið að útgáfu Kærleikskúlunnar og eru kúlurnar því orðnar þrettán talsins. Frá upphafi hafa kúlurnar fengið frábærar viðtökur landsmanna enda um að ræða einstakt safn listaverka eftir marga þekktustu listamenn okkar Íslendinga. Ófá heimilin hafa safnað kúlunum frá upphafi og eru þær víða orðnar eitt helsta jóladjásn heimilisins.

Kærleikskúla ársins ber heitið Landslag og er eftir listakonuna Rögnu Róbertsdóttur. Ragna er meðal helstu myndlistarmanna Íslendinga og hefur starfað að list sinni hérlendis síðan snemma á 8. áratugnum. Verk hennar hafa verið sýnd afar víða, m.a. í öllum helstu söfnum og sýningarsölum á Íslandi en einnig hefur hún sýnt víða erlendis. Hún var tilnefnd til Carnegie-verðlaunanna árið 2012 og einkasýning hennar Kynngikraftur á Kjarvalsstöðum árið 2004 er talin ein af áhrifameiri sýningum safnsins.

Ragna hefur oft verið sögð „landslagslistamaður“. Verk hennar eru þó ekki myndir af landslagi heldur færir hún landslagið sjálft inn í sýningarrými og einkaheimili. Hún vinnur verk sín úr náttúruefnum, sem hún safnar yfirleitt saman á gönguferðum sínum um Ísland. Helst dregst hún að eldfjöllunum, krafti þeirra til umbreytingar, afbyggingar og uppbyggingar, sem eru manneskjunni yfirsterkari.

Við gerð Kærleikskúlunnar notaðist Ragna við sjálflýsandi plast­agnir sem hún notar sem tákn fyrir hin litríku íslensku líparítfjöll og sláandi litadýrð þeirra sem orsakast af háu steinefnamagni og samspili þess við birtuna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×