Handbolti

Fyrsta titlalausa ár Valskvenna síðan 2009

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Morgan Marie Þorkelsdóttir spilaði vel með Valsliðinu í Flugfélags Íslands bikarnum.
Morgan Marie Þorkelsdóttir spilaði vel með Valsliðinu í Flugfélags Íslands bikarnum. Vísir/Vilhelm
Valskonur urðu að sætta sig við annað sætið í Flugfélags Íslands bikarnum í handbolta í gær eftir tap í úrslitaleik á móti liði Fram.

Framliðið vann úrslitaleikinn 26-24 í Íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði en Valsliðinu tókst að jafna metin í seinni hálfleik eftir að hafa lent níu mörkum undir í upphafi seinni hálfleiksins.

Valsliðið var því nálægt því að ná í titil á árinu 2015 en það tókst ekki. Þetta var því í fyrsta sinn síðan árið 2009 sem kvennalið Vals vinnur ekki titil á almanaksári.

Valsliðið tapaði þarna sínum þriðja úrslitaleik á þessu ári en Grótta vann Valsliðið bæði í bikarúrslitaleiknum sem og í leiknum í Meistarakeppni HSÍ.

Stefán Arnarson, þjálfari Framliðsins, vann aftur á móti titil sjötta almanaksárið í röð en hann þjálfaði Valsliðið á árunum 2008 til 2014 og undir hans stjórn vann Valsliðið sautján titla.

Titlar kvennaliðs Vals í handbolta undanfarin ár

2015 - Enginn

2014 - 2 (Íslandsmeistari, Bikarmeistari)

2013 - 3 (Bikarmeistari, Deildarmeistari, Meistari meistaranna)

2012 - 4 (Íslandsmeistari, Bikarmeistari, Deildarmeistari, Meistari meistaranna)

2011 - 4 (Íslandsmeistari, Deildarmeistari, Deildarbikarmeistari, Meistari meistaranna)

2010 - 4 (Íslandsmeistari, Deildarmeistari, Deildarbikarmeistari, Meistari meistaranna)

2009 - Enginn




Fleiri fréttir

Sjá meira


×