Viðskipti erlent

Hlutabréf halda áfram að falla

Sæunn Gísladóttir skrifar
Vísitölur í Bandaríkjunum hafa hækkað það sem af er degi.
Vísitölur í Bandaríkjunum hafa hækkað það sem af er degi. Vísir/Getty
Hlutabréf í Evrópu hafa fallið verulega í dag. Bréf í Deutsche Bank, sem hríðféll í byrjun viku, hafa lækkað um rúmlega fimm prósent það sem af er degi.

BBC greinir frá því að FTSE 100 vísitalan hafi fallið um 83 stig um eftirmiðdaginn. Markaðir í Frankfúrt hafa lækkað um 1,8 prósent og markaðir í París um 2,9 prósent.

Hlutabréf í Credit Suisse hafa lækkað um rúmlega átta prósent í dag og hafa hlutabréfin ekki verið lægri í tuttugu og sjö ár. Fjöldi fjárfesta hefur verið að losa sig við bréfin sín í dag. Credit suisse hefur lækkað um rúmlega fjörutíu prósent á árinu.

Svo virðist sem smitáhrif séu á Bandaríkjamarkaði þar sem hlutabréf á Wall Street lækkuðu við opnun. S&P 500 og Dow Jones vísitölurnar hafa lækkað um 1,3 prósent í morgunviðskiptum.

Það sem af er ári hafa hlutabréf evrópskra banka fallið verulega, eða milli fimmtán til fjörutíu prósent. Markaðir róuðust í gær eftir miklar lækkanir í byrjun viku. Lækkanirnar virðast þó hafa farið af stað á ný í dag. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×