Bílar

Red Dot Design verðlaunar Hyundai IONIQ

Finnur Thorlacius skrifar
Hyundai IONIC verður framleiddur sem tvinnbíll, tengiltvinnbíll og rafmagnsbíll.
Hyundai IONIC verður framleiddur sem tvinnbíll, tengiltvinnbíll og rafmagnsbíll.
Hyundai hefur hlotið sín sjöttu hönnunarverðlaun Red Dot Design á aðeins þremur árum. Red Dot Design-verðlaunin eru enn ein viðurkenningin sem Hyundai fær fyrir þá nýju og endurhönnuðu kynslóð bílaframleiðslunnar sem komið hefur fram á undanförnum árum. IONIQ er auk þess mikilvægur hlekkur í þeirri áherslu Hyundai að auka umhverfismildi bílanna.

Hyundai IONIQ var fyrst frumsýndur opinberlega 1. mars sl. á bílasýningunni í Genf. Bíllinn verður framleiddur í þremur rafmagnsútfærslum; sem Hybrid, Plug-In og sem hreinn rafmagnsbíll. Allar útfærslur fara í framleiðslu síðar á þessu ári og koma tvær gerðir í sýningarsalinn hjá Hyundai í Garðabæ í haust.

Fjölskipuð dómnefnd

Red Dot Design Awards eru ein eftirsóttustu hönnunarverðlaun sem veitt eru leiðandi framleiðendum í fjölda atvinnugreina. Að þessu sinni kepptu rúmlega fimm þúsund aðilar á sviði hönnunar, nýsköpunar og byltingarkenndra hugmynda. Í dómnefnd sitja tugir aðila frá 57 löndum, þar á meðal hönnunarsérfræðingar, háskólaprófessorar og blaðamenn. Verðlaunin eru því umfangsmestu og útbreiddustu samkeppnisverðlaun sem veitt eru í heiminum í dag.

Hyundai i20 og Sonata í fyrra

Á síðasta ári hlutu tvær gerðir Hyundai i20 Red Dot Design-verðlaunin auk Hyundai Sonata fyrir framúrskarandi hönnun og komu þau í kjölfar sömu verðlauna 2014 þegar þau féllu í skaut Hyundai i10 og Genesis. Sömu bílgerðir hafa einnig verið verðlaunaðar af öðrum aðilum í bílageiranum, eru m.a. handhafar verðlaunanna Good Design Award og iF Design Award, svo dæmi séu nefnd. 

Núverandi kynslóð nýrra bíla frá Hyundai einkennist af algerlega nýrri hugsun í hönnun sem slegið hefur í gegn meðal bílakaupenda um allan heim. Þetta kemur m.a. fram í neytendakönnunum sem gerðar hafa verið, þar sem þátttakendur hafa verið spurðir að því hvað ráði helst ákvörðun þeirra um kaup á nýjum Hyundai. Þar ræður hin nýja hönnun mestu um valið auk góðra akstureiginleika og mikils innra rými, sem evrópskir bílablaðamenn hafa t.d. óspart lofað.






×