Innlent

Stóraukin umferð um þjóðveg 1

Svavar Hávarðsson skrifar
Ferðamenn á leið í Jökulsárlón er hluti skýringarinnar hvað Mýrdalssand varðar.
Ferðamenn á leið í Jökulsárlón er hluti skýringarinnar hvað Mýrdalssand varðar. vísir/vilhelm
Umferðin í mars á þjóðvegi 1 jókst um ríflega tuttugu prósent frá sama mánuði í fyrra. Aldrei hefur mælst jafn mikil aukning milli mánaða á hringveginum, mismunandi tímasetning páska skýrir þetta ekki að öllu leyti og er talið líklegt að umferð erlendra ferðamanna skýri aukninguna að miklu leyti.

Umferðin um Mýrdalssand jókst um 83 prósent og hefur verið að aukast gríðarmikið undanfarin ár, til dæmis jókst umferðin um sandinn um 77 prósent milli aprílmánaða 2013 og 2014. Frá þessu segir á vef Vegagerðarinnar.

Umferðin eykst gríðarlega á öllum landsvæðum en mest um Austurland eða um tæp 54 prósent og næst mest um Suðurland eða um tæp 33 prósent. Minnst eykst umferðin við og um höfuðborgarsvæðið en þar mælist samt tæplega þrettán prósent aukning. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 4. apríl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×