Handbolti

Geir: Þurfum að nýta tímann vel

Stefán Árni Pálsson skrifar
Það er sannarlega mikið verk að vinna fyrir nýráðinn landsliðsþjálfara í handbolta, Geir Sveinsson. Íslenska landsliðið var í æfingabúðum hér á landi í vikunni og heimsótti Hörður Magnússon, íþróttafréttamaður Stöðvar 2, liðið og ræddi við Geir Sveinsson, nýráðinn landsliðsþjálfara, á föstudaginn.

„Við erum meira að einbeita okkur að varnarleik okkar þessa dagana,“ segir Geir.

„Hugsanlega erum við að skoða ný afbrygði í varnarleik og hafa í pokanum eitthvað meira en aðeins 6-0 vörn. Síðan kemur sóknin í framhaldinu.“

Tvö töp gegn Norðmönnum á dögunum sýndu hvað liðið á langt í land.

„Það var alveg ljóst fyrir þessa leiki að það yrði á brattann að sækja fyrir okkur, einfaldlega útfrá því í hvaða stöðu liðin voru. Við að hittast í fyrsta skipti með nýjan þjálfara og ekki einu sinni með okkar sterkustu leikmenn. Norðmenn voru búnir að æfa í heila viku og í miðjum undirbúningi fyrir forkeppni Ólympíuleikana. Staðan var strax ójöfn.“

Geir segir að liðið hafi farið í þetta verkefni til að fá sem mest út úr því.

„Ég vildi fá að skoða þá leikmenn sem valdir voru til verkefnisins og að menn myndu fá að spila. Mér finnst aldur leikmanna ekki skipta neinu máli, bara að menn séu í standi og hafa þeir áhuga á því að spila með íslenska landsliðinu.“

Hann segir að enginn leikmaður hafi komið til hans og talað um að hann vilji hætta með landsliðinu.

„Það eru allir klárir og við erum bara að undirbúa okkur fyrir umspilsleikina gegn Portúgal. Við höfum aðeins fimm daga til að undirbúa okkur, það er ekkert meira. Við þurfum því að nýta allan tíma saman mjög vel.“

Hér að ofan má sjá viðtalið við Geir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×