Handbolti

Axel: Efniviðurinn er til staðar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Axel ásamt Guðmundi B. Ólafssyni, formanni HSÍ.
Axel ásamt Guðmundi B. Ólafssyni, formanni HSÍ. vísir/stefán
Axel Stefánsson var kynntur til leiks sem næsti þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í handbolta í hádeginu í dag.



Axel, sem gat sér gott orð sem markvörður á árum áður, hefur búið og starfað í Noregi undanfarin áratug og unnið fyrir norska handknattleikssambandið síðan 2010. Axel hefur stýrt bæði yngri landsliðum Noregs í kvennaflokki sem og B-landsliðinu.

„Mér líkar áskoranir og það sem ég hef séð. Það eru margir spennandi leikmenn í íslenska liðinu en það eru ákveðin atriði sem þarf að vinna með. Það eru tækifæri til að búa til gott lið,“ sagði Axel sem mun vinna náið með félögunum og þjálfurum yngri landsliðanna.

Axel skrifaði undir þriggja ára samning við HSÍ og að hans sögn er markmiðið að koma Íslandi aftur inn á stórmót eftir brösugt gengi undanfarin ár.

„HSÍ hefur það markmið að vera með lið á stórmótum í kvennaflokki og við vinnum út frá því. Efniviðurinn er til staðar,“ sagði Axel sem er ekki enn búinn að finna sér aðstoðarmann. Hann segir þó að hann verði íslenskur.

Nánar verður rætt við Axel í Fréttablaðinu á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×