Handbolti

Birna Berg ein af markahæstu leikmönnum Meistaradeildarinnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birna Berg Haraldsdóttir.
Birna Berg Haraldsdóttir. Vísir/EPA
Íslenska stórskyttan Birna Berg Haraldsdóttir er heldur betur farin að minna á sig á ný eftir að hafa glímt við meiðsli síðustu misseri.

Birna Berg skoraði ellefu mörk fyrir norska liðið Glassverket í Meistaradeildinni um helgina og er í hópi markahæstu leikmanna Meistaradeildarinnar eftir tvær umferðir.

Birna Berg er komin með fimmtán mörk eða jafnmörg mörk og norska landsliðskonan Nora Mörk. Þær eru saman í öðru til þriðja sæti listans.

Markahæsta konan í Meistaradeildinni eins og er er hollenska landsliðskonan Laura van der Heijden sem spilar fyrir Team Esbjerg í Danmörku. Van der Heijden hefur skorað 20 mörk eða fimm mörkum meira en Birna og Nora.

Birna Berg var langmarkahæst í liði Glassverket sem tapaði 23-30 á heimavelli á móti Buducnost frá Svartfjallalandi. Birna Berg skoraði 48 prósent marka síns liðs og átta mörkum meira en sú næsta í norska liðinu.

Birna var næstmarkahæst í fyrsta leiknum en hún skoraði þá fjögur mörk í átta marka tapi Glassverket á útivelli á móti Thüringer HC frá Þýskalandi.

Birna Berg hafði auk þess skorað átta mörk í tveimur leikjum í undankeppninni þegar Glassverket tryggði sér sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Nú er bara að vona að Birna Berg haldist heil og komist í enn betra form fyrir komandi leiki íslenska landsliðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×