Handbolti

Rakel: Vissi strax að við myndum klára þetta

Guðmundur Marinó Ingvarsson í Laugardalshöllinni skrifar
Rakel stýrði ferðinni vel í dag.
Rakel stýrði ferðinni vel í dag. Vísir/andri marinó
„Við mætum ótrúlega klárar til leiks og tilbúnar að berjast. Ég vissi strax að myndum klára þetta þó við vissum að þær myndu saxa á,“ sagði Rakel Dögg Bragadóttir eftir sigur Stjörnunnar á Fram Coca-Cola bikar kvenna í dag.

„Við héldum haus, héldum áfram og kláruðum þetta mjög vel.“

Stjarnan byrjaði leikinn mjög vel, keyrði hraðaupphlaup og skoraði úr fimm slíkum á rúmlega 10 mínútum í upphafi leiks en fleiri voru þau ekki í öllum leiknum.

„Við hættum að keyra á þær. Við hefðum átt að halda því áfram. Við vildum hafa þetta öruggt og þetta er týpískt sem gerist þegar maður er kominn með forskot.

„Við vorum skynsamar og agaðar allar 60 mínúturnar,“ sagði Rakel.

Stjarnan skoraði aðeins 8 mörk síðustu 42 mínútur leiksins en varnarleikur liðsins var góður allan leikinn.

„Varnarleikurinn var rosalega góður svo ekki sé minnst á Hafdísi (Renötudóttur) fyrir aftan. Hún var að spila gegn sínum gömlu félögum í  svona stórum leik. Þetta er ung og flott stelpa sem kemur og á völlinn í dag.“

Rakel varð bikarmeistari með Stjörnunni einnig fyrir ári síðan og segir vonlaust að bera þetta saman.

„Hver einasti bikar er einstakur. Þetta er alltaf svo geggjuð tilfinning og maður fær alltaf þessa gæsahúð í byrjun þegar þjóðsöngurinn er spilaður og leikurinn er flautaður á. Svo þegar bikarinn er kominn. Þetta er geggjuð tilfinning,“ sagði Rakel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×