Handbolti

Baráttan hefst í Mýrinni

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Leikir liðanna í vetur hafa verið frábær skemmtun.
Leikir liðanna í vetur hafa verið frábær skemmtun. vísir/andri
Úrslitaeinvígið í efstu deild kvenna, Olís-deildinni, hefst í kvöld klukkan 20.00 þegar Stjarnan tekur á móti Fram.

Þetta voru tvö sterkustu lið deildarinnar og er búist við afar skemmtilegu einvígi. Bæði lið fengu 35 stig í deildinni en Stjarnan varð deildarmeistari á innbyrðisárangri og munaði þar aðeins einu marki. Það segir mikið um hversu jöfn þessi lið eru.

Þau mættust þrisvar í deildinni. Einu sinni var jafntefli og svo unnu þau hvort sinn leikinn. Þau mættust líka í úrslitum bikarkeppninnar og þar vann Stjarnan með einu marki, 19-18.

Stjarnan er því bæði deildar- og bikarmeistari. Stjörnustúlkur vilja þó landa þeim stóra eftir að hafa þurft að sætta sig við silfur fjögur ár í röð.

Þar af tapaði liðið síðustu tvö ár fyrir Gróttu í úrslitum.

Stjarnan náði þó fram hefndum gegn Gróttu með því að vinna einvígið gegn Seltirningum 3-2. Stjarnan vann samt eiginlega 4-1 því Grótta fékk einn vinning að gjöf eftir að Stjarnan hafði teflt fram ólöglegum leikmanni.

Fram aftur á móti ruddi Haukum úr vegi sínum í undanúrslitunum. Fram vann einvígið 3-0 en alla leikina þrjá með samtals fimm marka mun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×