Innlent

Málmagnir í eldsneytiskerfi ollu nauðlendingu á Sandskeiði

Birgir Olgeirsson skrifar
TF-FGC á flugvellinum við Sandskeið
TF-FGC á flugvellinum við Sandskeið Rannsóknarnefnd samgönguslysa
Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur gefið út lokaskýrslu vegna alvarlegs flugatviks sem varð á flugvél TF-FGC, af gerðinni Diamond Aircraft Industries, við Sandskeið þann 13. september árið 2014.

Flugkennari var með flugnema í kynnisflugi í Austursvæði ofan Reykjavíkur. Í klifri í um 2200 feta hæð varð flugkennarinn var við óeðlilegt hljóð frá hreyfli flugvélarinnar. Var þá flugvélin stödd í grennd við Litlu kaffistofuna og stefndi flugkennarinn þá flugvélinni í átt að flugvellinum við Sandskeið.

Agnir sem fundust í mælistykkiRannsóknarnefnd samgönguslysa
Skammt frá Sandskeiði stöðvaðist hreyfill flugvélarinnar og lýsti flugkennarinn þá yfir neyðarástandi og nauðlenti flugvélinni á flugvellinum við Sandskeið.

Leiddi rannsókn RNSA í ljós að málmagnir var að finna í mælistykki í eldsneytiskerfi flugvélarinnar, en hreyfill hennar hafði verið grannskoðaður skömmu áður.

Er það mat rannsóknarnefndarinnar að agnirnar sem fundust í eldsneytiskerfinu hafi líklega verið frá samsetningu og stíflað eldsneytisflæði af og til. Það hafi verið orsök þess að hreyfillinn hafi starfað óeðlilega.

Ekki hefur fundist skýring á því hvernig agnirnar komust í eldsneytiskerfið en rannsóknarnefndin telur líklegast að það hafi gerst hjá framleiðanda eldsneytiskerfisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×