Handbolti

Yfirlýsing HSÍ: Hafa ekki völd yfir ráðningum félaganna

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Handknattleikssamband Íslands sendi frá sér yfirlýsingu vegna umfjöllunar í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær. Þar kom fram fyrrum handboltakona sem gagnrýndi að þjálfari sem var rekinn frá félagi vegna óviðeigandi hegðunar hafi verið ráðinn inn hjá öðru félagi.

Í yfirlýsingunni segir: „Eins og áður hefur komið fram í umræðu #metoo, þá er ljóst að íþróttahreyfingin hefur sofið á verðinum í þessum málum og er HSÍ ekki þar undanskilið. Ekki hafa verið til verkferlar eða reglur um hvernig á að taka á svona kvörtunum og hvaða afleiðingar þær geta haft.“

„Sambandið hefur hins vegar ekki völd til að ákvarða hvort einstakir aðilar geti starfað hjá aðildarfélögum þess, það ákvörðunarvald er hjá félögunum sjálfum. Á sínum tíma brást HSÍ þannig við að umræddur aðili vann ekki sjálfboðastarf fyrir sambandið í u.þ.b. tvö ár eftir það. Eflaust má gagnrýna sambandið fyrir að fela honum afmörkuð verkefni einungis tveimur árum síðar og tekur HSÍ allri gagnrýni með opnum hug og mun gera betur í framtíðinni.“

„Umræddur aðili hefur þó hvergi komið nærri afreks- eða landsliðshópum síðan.“

„Sambandið hefur þegar brugðist við þessari gagnrýni og hafið vinnu að leiðum og reglum sem tryggja stöðu þolenda og taka á þeim álitaefnum sem um ræðir.“

Umfjöllun Stöðvar 2 frá því í gærkvöld má sjá í spilaranum hér að ofan. Rætt verður við Guðmund B. Ólafsson, formann HSÍ, í kvöldfréttunum í kvöld.


Tengdar fréttir

Rekinn eftir áreitni og ráðinn hjá öðru félagi

Fyrrverandi handboltakona sem var áreitt kynferðislega af þjálfara sínum er óánægð með framgöngu HSÍ í málinu. Þjálfarinn var rekinn eftir að upp komst um brot gegn annarri konu en var síðar ráðinn hjá öðru liði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×