Handbolti

Björgvin: Algjört bull að menn geti komið of ungir inn í landsliðið

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Björgvin Páll Gústavsson, landsliðsmarkvörður, stendur einn eftir af silfurdrengjunum í landsliðshópi Guðmundar Guðmundssonar sem tilkynntur var í dag.

Ásgeir Örn Hallgrímsson er meiddur og Guðjón Valur Sigurðsson fékk frí af persónulegum ástæðum en kynslóðaskiptin vera æ meira áberandi í íslenska liðinu.

„Einhverjir eru kannski í fríi segja þeir þannig það er engin von úti fyrir þessa silfurdrengi að koma aftur. Þetta er skemmtilegt verkefni sem við erum að fara í þannig ég er lítið að spá í hvort þarna séu silfurdrengir eða ekki,“ segir Björgvin Páll sem finnst hann nú ekki vera gamall.

„Mér finnst við eldast voðalega hægt. Ég er með Guðjóni Val í herbergi sem virðist geymdur í formalíni. Ég er búinn að vera fimmtán ár í þessu landsliði. Gummi valdi mig fyrstur og heldur áfram að velja mig þannig ég er glaður að vera í þessum hópi.“

Ungir menn úr Olís-deildinni fá nú tækifæri hjá Guðmundi eins og hinn 16 ára gamli Haukur Þrastarson sem hefur vakið gríðarlega athygli í vetur.

„Það koma alltaf kynslóðaskipti. Það er gaman að sjá þessa ungu og fersku gaura, sérstaklega úr Olís-deildinni, koma upp og banka svona virkilega á dyrnar og komast inn. Ég er viss um að þeir muni láta að sér kveða og vera með læti,“ segir Björgvin.

„Ég held að aldur sé algjörlega afstæður í þessu samhengi. Mér finnst algjört bull að menn geti verið of ungir þegar þeir koma inn í landsliðið. Ég hef ekki ennþá séð mann sturta ferlinum niður í klósettið með því að komast of ungur inn í landsliðið,“ segir Björgvin Páll Gústavsson.

Allt viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir

Vantar sjö leikmenn úr EM-hópnum

Það eru tæpir tveir mánuðir síðan íslenska landsliðið var á EM í Króatíu og er mikil breyting á landsliðshópnum á þessum stutta tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×