Handbolti

Íslenska landsliðið missir meira en þúsund landsleiki á einu bretti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ásgeir Örn Hallgrímsson er meiddur.
Ásgeir Örn Hallgrímsson er meiddur. Vísir/EPA
Sjö leikmenn sem voru með íslenska landsliðinu á EM í Króatíu í janúar eru ekki í fyrsta hóp Guðmundar Guðmundssonar. Þar fer gríðarlega reynsla út úr hópnum á einu bretti.

Þessir sjö leikmenn sem Guðmundur velur ekki að þessu sinni hafa samtals spilað 1039 leiki og skorað 2884 mörk fyrir íslenska A-landsliðið.

Guðjón Valur Sigurðsson fær frí af fjölskylduástæðum, Ásgeir Örn Hallgrímsson og Janus Daði Smárason eru báðir meiddir en hinir fjórir eru ekki valdir í liðið að þessu sinni.

Mestu munar um reynsluna hjá þeim Guðjóni Val Sigurðssyni, Ásgeiri Erni Hallgrímssyni og Arnóri Atlasyni sem hafa verið fastamenn í liðinu í langan tíma. Þessir þrír hafa allir spilað yfir tvö hundruð landsleiki og samtals 803 leiki.

Guðjón Valur Sigurðsson hefur spilað 347 leiki á landsliðsferlinum og er orðinn leikjahæsti útileikmaður Íslands frá upphafi. Guðjón Valur komst þar upp fyrir Geir Sveinsson sem spilaði á sínum tíma 340 leiki.

Guðmundur Hrafnkelsson er sá leikjahæsti í sögunni með 407 leiki og Guðjóni Val vantar því enn 60 landsleiki til að ná honum.



Sjö ekki með sem voru í EM-hópnum í janúar

Þessir missa af Gulldeildinni:

Guðjón Valur Sigurðsson - 347 leikir, 1816 mörk

Ásgeir Örn Hallgrímsson - 253 leikir, 422 mörk

Arnór Atlason - 203 leikir, 439 mörk

Kári Kristján Kristjánsson - 134 leikir, 154 mörk

Bjarki Már Gunnarsson - 68 leikir, 16 mörk

Janus Daði Smárason - 24 leikir, 37 mörk

Ágúst Elí Björgvinsson - 10 leikir

Þessir héldu sæti sínu í landsliðinu:

Björgvin Páll Gústavsson

Bjarki Már Elísson

Aron Pálmarsson

Ólafur Guðmundsson

Ómar Ingi Magnússon

Rúnar Kárason

Arnór Þór Gunnarsson

Arnar Freyr Arnarsson

Ýmir Þór Gíslason




Fleiri fréttir

Sjá meira


×