Innlent

Flugvél Icelandair rann út af á Keflavíkurflugvelli

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Frá Keflavíkurflugvelli.
Frá Keflavíkurflugvelli. Vísir/Vilhelm
Flugvél Icelandair á leið frá Seattle rann út af akbraut við Keflavíkurflugvöll skömmu eftir lendingu hér á landi í morgun. Mikill snjór og lélegt skyggni er á svæðinu.

Suðurnes.net greindi fyrst frá en samkvæmt upplýsingum Vísis fór nefið út af akbrautinni og festist vélin í snjónum.

Í samtali við Vísi segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair að vélin hafi verið keyrt eftir akbraut í átt að flugstöðinni.

„Þarna er gríðarlega mikil snjókoma og hálka og hún rennur út af ökuleiðinni,“ segir Guðjón. Hann segir að engum hafi orðið meint af en veikur farþegi um borð var fluttur á brott með sjúkrabíl. Búið er að flytja farþega úr flugvélinin yfir í flugstöðina.

Unnið er að því að aflesta vélina en hún er enn á sínum stað og reiknar Guðjón með að einhvern tíma muni taka að losa vélina úr snjónum, enda sé slæmt skyggni og aðstæður séu þannig að það verk muni taka einhvern tíma.

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir að engin röskun hafi orðið á flugi vegna atviksins og reiknar hann ekki með að svo verði. Veður sé þó þannig að nokkur röskun sé á flugi til og frá Keflavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×