Handbolti

Seinni bylgjan: Alexander 100 prósent í öllu sem hann gerir

Einar Sigurvinsson skrifar
Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Japan, var mjög ánægður með val Guðmundar Guðmundssonar á Alexander Erni Júlíssyni, í fyrsta landsliðshóp sinn. Alexander hefur leikið vel fyrir lið Vals í Olís-deildinni í vetur en þetta er í fyrsta sinn sem hann er valinn í landsliðið. Hann fetar því í fótspor föður síns, Júlíusar Jónassonar sem lék 288 landsleiki fyrir Ísland.

Í Seinni bylgjunni í gær spurði stjórnandi þáttarins, Tómas Þór Þórðarson, Dag að því hvort honum þætti sæti Alexanders í landsliðshópnum vera óvænt. Það fannst honum ekki.

„Mér finnst þetta ekki óvæntustu tíðindin, mér finnst þetta jákvæðustu tíðindin,“ sagði Dagur og bætti við.

„Þetta er svona strákur sem er kennslubókardæmi um það að hafa aldrei verið einhver súpergæi, yfirleitt í skugganum á einhverjum. Hann hefur bara unnið alveg ótrúlega óeigingjarnt starf fyrir liðið og er bara 100 prósent drengur í öllu sem hann gerir. Það er bara gríðarlega ánægjulegt að hann fái sénsinn.“

Tómas velti því síðan fyrir sér hvort að Guðmundur sé með landsliðhóp sínum að reyna að endurskapa þekkt varnarpar liðsins undir hans stjórn, þá Ingimund Ingimundarson og Sverre Jakobsson. Auk Alexanders valdi Guðmundur þá Ými Örn Gíslason og Hauk Þrastarson.

„Ég held að þeir séu báðir, Ýmir og Alexander, vel til þess fallnir að spila þessa vörn. Haukur Þrastarson er það líka. Svo er bara spurning hverjir verða akkerin til baka,“ sagði Dagur að lokum.

Umræðuna í heild má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×