Handbolti

Ragnheiður best í Olís-deildinni: „Ánægð með að vera orðin ágætur varnarmaður“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Olís-deild kvenna var gerð upp samhliða því að hita upp fyrir úrslitakeppnina í sérstökum þætti af Seinni bylgjunni á Stöð 2 Sport HD í gærkvöldi sem tileinkaður var konunum. Þar var lið ársins útnefnt samhliða þjálfara ársins, besta unga leikmanninum og besta varnarmanninum.

Ragnheiður Júlíusdóttir, markadrottning deildarinnar, var útnefnd besti leikmaðurinn en hún var frábær bæði í sókn og vörn í vetur. Hún hefur bætt sig gríðarlega sem varnarmaður á síðustu mánuðum.

„Útispilari sem ætlar að vera valinn bestur þarf að gera eitthvað á báðum endum vallarins. Það er klárt mál. Það er ekki hægt að vera best í deildinni ef þú ætlar bara að spila öðru megin,“ sagði Sebastian Alexandersson, sérfræðingur Seinni bylgjunnar, um Ragnheiði.

Hann bætti svo við að Ragnheiður hefði alltaf verið góð í vörn. Málið væri bara það að hún hefði aldrei nennt að spila vörnina. Hún var spurð hvort það hefði breyst þegar hún settist í spjallsettið hjá Stefáni Árna Pálssyni í þætti gærkvöldsins.

„Já, ætli það ekki. Ég fékk loksins að spila þrist og það var eitthvað sem að mér bauðst þegar að Elva fór til Danmerkur og Steinunn varð ólétt. Ég ákvað bara að taka því með opnum hug og bæta mig í vörninni. Mér finnst orðið mjög gaman að spila vörn núna og er ánægð með að vera orðin ágætur varnarmaður,“ sagði Ragnheiður.

Allt viðtalið við Ragnheiði og Guðrúnu Ósk Maríasdóttur, markvörð ársins úr liði Fram, má sjá í spilaranum hér að ofan.

Lið ársins.

Tengdar fréttir

Tölfræðin ekki með ÍBV í liði

Úrslitakeppni Olís-deildar kvenna hefst í kvöld með leik Íslands- og bikarmeistara Fram og ÍBV í Safamýrinni. Framkonur hafa unnið alla leiki liðanna í vetur. Á morgun hefst einvígi deildarmeistara Vals og Hauka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×