Handbolti

Sigurbjörg: Ánægð að fá Val í úrslitaeinvíginu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Sigurbjörg Jóhannsdóttir.
Sigurbjörg Jóhannsdóttir.
Úrslitaeinvígið í Olís-deild kvenna hefst í kvöld er deildarmeistarar Vals taka á móti Íslandsmeisturum Fram.

Sigurbjörg Jóhannsdóttir, einn af lykilmönnum Fram-liðsins, segir að Fram-stúlkur séu klárar í titilvörnina.

„Við erum tilbúnar í slaginn og þetta verður jöfn barátta. Við erum að spila á móti mjög sterku Valsliði sem hafa átt mjög gott tímabil,“ segir Sigurbjörg við Guðjón Guðmundsson sem bendir á að það sé valinn maður í hverju rúmi í Fram-liðinu.

„Við höfum endurheimt alla okkar menn og erum vaxandi. Við ættum að vera vel undirbúnar fyrir þessa rimmu. Eins og alltaf mun þetta ráðast á vörn og markvörslu. Það eru mjög mikilvægir þættir sem skila sigri á endanum.“

Það er mikil reynsla í liði Fram enda landsliðskona í flestum stöðum.

„Hugarfarið er stór hluti af þessu og sérstaklega í svona rimmu. Bæði lið þekkja hvort annað út og inn. Þá er það viljinn og krafturinn sem skilur á milli,“ segir Sigurbjörg en finnur hún fyrir pressu?

„Nei, ég finn meiri spennu og tilhlökkun. Ég er glöð að fá þennan slag. Það er alltaf skemmtileg barátta á milli þessara liða. Þetta eru tvö bestu lið landsins og ég held að þetta verði góð barátta.“

Leikurinn hefst klukkan 19.30 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Seinni bylgjan byrjar að hita upp fyrir leikinn klukkan 19.10.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×