Handbolti

Kári Kristján tók „Eina“ á Gaupa í viðtali eftir sigurinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kári Kristján Kristjánsson, línumaður ÍBV, var góður í endurkomusigrinum, 25-22, á móti Haukum í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Olís-deildar karla í handbolta í gærkvöldi.

Eyjamenn eru komnir í 2-0 í einvíginu og geta sópað Haukum í sumarfrí á laugardaginn en útlitið var ekki gott í hálfleik þar sem að Haukarnir voru 15-9 yfir.

„Þetta var göngubolti hjá okkur í fyrri hálfleik. Ég náði að stíga þá út vel fyrsta korterið en svo loka þeir á mig og Bjöggi er að verja vel. Þeir voru sex mörkum yfir í hálfleik þar sem að við vorum frekar hægir og pínu þreyttir eftir þetta Evrópufjör,“ sagði Kári í viðtali við Guðjón Guðmundsson eftir leikinn.

Gaupi á líklega frægasta Twitter-frasa Íslands eða frægasta orðið. Hann endar öll tíst sín á orðinu „Eina“ sem margir hafa spurt sig hvað þýðir. Kári Kristján er húmoristi mikill og nýtti tækifærið til að nota þetta orð í viðtalinu.

„Við vorum frábærir í seinni hálfleik. Andri Heimir var frábær. Dagur kemur inn á og stjórnar sóknarleiknum síðasta korterið. Hann var frábær. Aron Rafn var frábær. Eina,“ sagði Kári en kom Gaupa ekki úr jafnvægi.

Línumaður öflugi hlakkar mikið til laugardagsins en Eyjaliðið er líklegt til að vinna þrennuna þar sem að það er einnig deildarmeistari og bikarmeistari.

„Þetta er búið að vera ógeðslega gaman. Ég verð að viðurkenna að það er drullulangt síðan að mér fannst þetta svona ógeðslega gaman. Það verður pakkfullt í Vestmannaeyjum klukkan fimm á laugardaginn,“ sagði Kári Kristján Kristjánsson.

Viðtalið má sjá hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×