Handbolti

Seinni bylgjan: Ætlar að gera Stjörnuna að þreföldum meisturum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
S2 Sport
ÍBV vann Stjörnuna í fyrsta leik liðanna í Olísdeild kvenna um helgina. Sérfræðingarnir í Seinni bylgjunni á Stöð 2 Sport fóru vel yfir leikinn í þætti gærkvöldsins.

Sebastian Alexandersson, einn sérfræðingur Seinni bylgjunnar, er nýr þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar og stýrði liðinu í sínum fyrsta leik á laugardaginn.

Stjarnan átti fínan leik gegn sterku liði ÍBV en tapaði með tveimur mörkum, 27-25.

Sandra Dís Sigurðardóttir var markahæst í liði ÍBV og fékk mikið lof frá sérfræðingunum fyrir frammistöðu sína.

„Gaman að sjá hana stíga aðeins upp. Er með hörku skot, ung á leiðinni upp og heldur sér vonandi í formi og bætir við,“ sagði Gunnar Berg Viktorsson.

Sérfræðingarnir ræddu einnig róteringuna á ÍBV-liðinu, leikhlé Stjörnunnar og gríðarsterkt varnarafl ÍBV.

„Mér fannst holningin í Stjörnunni góð. Stelpurnar eru í góðu formi og allt svona er jákvætt fyrir framhaldið,“ sagði Gunnar Berg.

„Við vitum alveg hvert Basti er að stefna með þetta lið. Eftir eitt ár ætlar hann að gera þetta lið að þreföldum meisturum,“ sagði Logi Geirsson.

„Já, það er ekkert verið að taka menn úr Seinni bylgjunni til þess að vera í einhverju miðjumoði að eilífu,“ tók Tómas Þór Þórðarson undir.

Umræðuna í heild sinni má sjá í spilaranum hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×