Umfjöllun og viðtöl: Grótta - Haukar 22-31 | Aldrei spurning á Nesinu

Viktor Örn Guðmundsson skrifar
Hreiðar Levý í leik með Gróttu.
Hreiðar Levý í leik með Gróttu. vísir/stefán
Haukar unnu sinn þriðja sigur í röð í Olísdeild karla í handbolta þegar liðið lagði Gróttu úti á Nesi, 22-31. Haukar eru því komnir með sjö stig að loknum fimm leikjum en Grótta hefur þrjú stig.

Heimir Óli Heimisson og Orri Þorkelsson voru markahæstir Hauka með sjö mörk og Grétar Ari Guðjónsson varði 12 skot. Ágúst Emil Grétarsson var markahæstur í liði Gróttu með fjögur mörk og Hreiðar Levý Guðmundsson varði níu skot í markinu.

Það var aðeins í byrjun leiks að heimamenn héldu í við sterka Hauka. Varnarleikur gestanna batnaði jafnt og þétt eftir því sem leið á hálfleikinn og bak við vörnina stóð Grétar Ari vaktina vel.

Haukar léku sig oftast í besta færið sem var í boði og það var morgunljóst að töluverður styrkleikamunur er á þessum liðum. Staðan að loknum fyrri hálfleik var 8-14 og heimamenn máttu í raun prísa sig sæla með þá stöðu en Haukar misnotuðu tvö vítaköst í fyrri hálfleik.

Seinni hálfleikur var í raun formsatriði. Grótta náði reyndar með mikilli baráttu og góðum leik Sveins Jose Rivera að minnka muninn í fjögur mörk í stöðunni 17-21 en þá sögðu Haukar hingað og ekki lengra, stigu aftur á bensíngjöfina og unnu afar sannfærandi og sanngjarnan sigur.

Af hverju unnu Haukar?

Haukar eru með mun betra lið en Grótta og eiga á eðlilegum degi að klára svona leiki. Ekki var það að hjálpa Gróttu að fjóra lykilmenn vantaði í liðið en Seltirningar þurfa svo sannarlega á öllum sínum mönnum að halda í svona leik.

Þessir stóðu upp úr

Hornamaðurinn efnilegi, Orri Freyr Þorkelsson var frábær í vinstra horninu hjá Haukum. Orri þarf að axla mikla ábyrgð í fjarveru Einars Péturs Péturssonar sem er líklega með slitið krossband. Heimir Óli átti enn einn stórleikinn á línunni og nýtir færin sín gríðarlega vel.

Ágúst Emil Grétarsson var sprækur í liði Gróttu og Gellir Michaelsson sýndi á köflum fín tilþrif.

Hvað gekk illa?

Varnarleikur beggja liða var mjög gloppóttur í upphafi seinni hálfleiks, þegar var boðið upp á rútuferðir inn á línuna. Markvörðunum gekk heldur ekkert sérstaklega vel að eiga við hornamennina, sem skoruðu mörk í öllum regnbogans litum.

Hvað gerist næst?

Haukar taka á móti Stjörnunni á heimavelli sínum en Grótta fer í stutt ferðalag í Safamýri og mætir þar Fram.

Gunnar: Gerum ekki sömu mistökin aftur
Gunnar Magnússon þjálfari Hauka.Vísir/Anton
„Ég er bara ánægður með hugarfarið hjá strákunum og hvernig þeir nálguðust þetta verkefni. Menn voru á fullu og við höfðum góð tök á þessum leik nánast allan tímann. Gróttumenn börðust vel og það er oft erfitt að hrista þá af sér,“ sagði Gunnar Magnússon eftir leik.

Gunnar minnir á að Haukar hafi misstigið sig í vetur gegn fyrirfram „veikara“ liði.

„Við höfum brennt okkur á því áður í vetur að mæta á erfiðan útivöll ekki tilbúnir og ætlum ekki að gera sömu mistökin aftur. Við gerðum þetta eins og fagmenn í dag.“

Einar Pétur Pétursson meiddist illa í síðasta leik en í fjarveru hans steig hinn efnilegi Orri Þorkelsson heldur betur upp í vinstra horninu.

„Einar Pétur fer í myndatöku á þriðjudaginn og líklega eru krossböndin farinn hjá honum. Hann verður því miður ekkert meira með á þessu tímabili. Það er slæmt fyrir okkur þar sem hann er mikilvægur innan vallar sem utan.“

„Orri er samt ekkert að koma okkur á óvart, við vitum alveg hvað hann getur í handbolta. Þetta er hæfileikaríkur strákur sem getur náð langt ef hann leggur mikið á sig ,“ sagði Gunnar

En er ekki svolítið djarft spilað að fara inn í veturinn með einn kornungan hornamann?

„Við sjáum bara til með styrkingu í vinstra horninu. Við fáum a.m.k. staðfest með Einar Pétur áður en við förum í eitthvað panic. Við skoðum bara hvaða kostir eru í stöðunni með yngri flokkana okkar en öndum engu að síður rólega með Orra í þessari stöðu,“ sagði Gunnar Magnússon

Einar: Þurfum að nýta okkar færi betur
Einar Jónsson þjálfari GróttuVísir/Andri Marinó
Einar Jónsson var sammála blaðamanni að Haukar hafi einfaldlega verið of stór biti fyrir Gróttu í dag.

„Við byrjum á því að brenna of mikið af dauðafærum í upphafi sem hefði kannski getað haldið okkur lengur inni í leiknum. Ef við ætlum að eiga séns á móti Haukum, þá þurfum við að nýta dauðafærin okkar. Þeir voru bara betri en við í dag og þar af leiðandi vorum við lélegri en þeir í dag,“ sagði Einar furðu léttur.

„Það eru fjórir byrjunarliðsmenn sem eru fjarverandi í dag og það skiptir auðvitað máli. Við eigum samt að geta spilað betri leik. Það eru alveg kaflar sem ég er ánægður með en við förum of mikið út úr skipulagi. Auðvitað getur það komið fyrir að tapa fyrir Haukum sem eru með frábært lið en frammistaðan var engu að síður ekki alveg nógu góð.“

Orri Freyr: Verð betri en pabbi
Úr leik Hauka.vísir/ernir
„Mér fannst liðsheildin skila þessum sigri í dag. Við unnum þetta allir saman og þess vegna förum við með bæði stigin,“ sagði Orri Freyr Þorkelsson, hornamaður Hauka sem skoraði sjö falleg mörk í dag.

Orri fær stórt hlutverk í vetur, ekki síst vegna meiðsla Einars Péturs Péturssonar.

„Það er auðvitað gott að fá sénsinn en mjög leiðinlegt að Einar sé meiddur. Hann er mikilvægur fyrir liðið og ekki síst fyrir mig. Einar er góður liðsfélagi og þetta er bara leiðinlegt. Nú erum við Haukamenn samt komnir á gott skrið og ég er afar sáttur með það hvernig liðið spilaði í dag.“

En ertu orðinn betri en pabbi þinn? (Þorkell Magnússon, margfaldur meistari með Haukum).

„Nei, kannski ekki alveg. En ég mun verða betri,“ sagði Orri brosandi að lokum

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira