Handbolti

Valskonur burstuðu Hauka og endurheimtu toppsætið

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Lovísa Thompson.
Lovísa Thompson. vísir/bára
Valskonur gerðu góða ferð í Hafnarfjörð þegar Hlíðarendaliðið heimsótti Hauka í 10.umferð Olís-deildar kvenna í dag. 

Snemma var ljóst í hvað stefndi því gestirnir voru komnir með fimm marka forystu eftir tíu mínútna leik, 1-6. Eftir það var raunar aldrei spurning hvorum megin sigurinn myndi lenda og fór að lokum svo að Valskonur unnu 14 marka sigur, 16-30, eftir að hafa leitt með átta mörkum í leikhléi, 7-15.

Lovísa Thompson var markahæst með sjö mörk fyrir Val en þær Sandra Erlingsdóttir og Díana Dögg Magnúsdóttir gerðu sex mörk hvor. Í liði Hauka var Maria Ines Pereira atkvæðamest með sex mörk.

Valur endurheimti toppsætið með sigrinum en ÍBV hafði fyrr í dag skotist upp í efsta sæti deildarinnar með sigri á KA/Þór í Vestmannaeyjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×