Innlent

Skiptir ekki máli að skrópa þegar jörðin er að eyðileggjast

Sighvatur Jónsson skrifar
Nemendur á öllum skólastigum um allan heim skrópuðu í skólann í dag til að vekja athygli á baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Þetta er fjórði föstudagurinn í röð sem mótmælt er í Reykjavík en fjölmenni fór í kröfugöngu frá Hallgrímskirkju að Austurvelli.

Víða um heim hafa nemendur mótmælt undir kjörorðunum „föstudagar til framtíðar“ undanfarið. Í dag var meðal annars mótmælt í Hollandi, Þýskalandi, Frakklandi og í Svíþjóð þar sem þetta allt hófst með aðgerðum Gretu Thunberg. Í Reykjavík var gengið fylktu liði frá Hallgrímskirkju niður á Austurvöll.

Nemendur í 7. bekk í Melaskóla sögðu að þau ættu eiginlega ekki að skrópa. „En það skiptir ekki máli þegar jörðin er í eyðileggingu,“ sagði einn nemenda í samtali við fréttastofu.

Sævar Helgi Bragason, kennari og sjónvarpsmaður, sem hefur mikið látið að sér kveða í umræðu um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum tók þátt í mótmælunum á Austurvelli í dag.

Sævar sagði aðgerðir nemenda stórkostlegar. „Maður verður hálf klökkur af því að sjá allan þennan hóp. Ég er svo heppinn að hafa kennt mörgum þeirra um stjörnurnar, alheiminn og jörðina okkar,“ sagði Sævar Helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×