Innlent

Hringdi bjöllunni um miðja nótt og sagðist vera sölumaður

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Grunsamlegi sölumaðurinn var á ferð í Garðabæ í nótt.
Grunsamlegi sölumaðurinn var á ferð í Garðabæ í nótt. Vísir/vilhelm
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um grunsamlegan mann á ferð í Garðabæ á þriðja tímanum í nótt. Í dagbók lögreglu segir að maðurinn hafi hringt dyrabjöllu í húsi og orðið vandræðalegur þegar húsráðandi kom til dyra, „eins og hann hafi ekki búist við að fólk væri heima“. 

Maðurinn kvaðst þá vera í söluerindum og sagðist hafa farið húsavillt. Hann fannst skömmu síðar þar sem hann sat í bifreið. Maðurinn var handtekinn, grunaður um nytjastuld bifreiðar, brot á vopnalögum og vörslu fíkniefna, og vistaður í fangageymslu.

Á sjötta tímanum í gær var svo tilkynnt um mann að stela úr verslunum í hverfi 105 og 108.  Maðurinn var handtekinn skömmu síðar og ætluðu þýfi sem hann hafði í fórum sínum var skilað aftur í verslanir.  Maðurinn var vistaður í fangageymslu á meðan mál hans var unnið en síðar sleppt.

Laust eftir klukkan ellefu í gærkvöldi var tilkynnt um eld í bát í hverfi 104. Enginn eldur var sjáanlegur en mikinn reyk lagði frá bátnum. Talið er að reykurinn hafi átt upptök sín í rafgeymum en ekki er vitað um tjón.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×