Handbolti

Öruggur íslenskur sigur í fyrsta leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tinna Sól Björgvinsdóttir var markahæst hjá Íslandi gegn Grikklandi með sex mörk. Sara Sif Helgadóttir varði 13 skot í marki Íslands.
Tinna Sól Björgvinsdóttir var markahæst hjá Íslandi gegn Grikklandi með sex mörk. Sara Sif Helgadóttir varði 13 skot í marki Íslands. mynd/hsí
Íslenska kvennalandsliðið í handbolta skipað leikmönnum 19 ára og yngri vann öruggan sigur á Grikklandi, 22-14, í fyrsta leik sínum á EM í Búlgaríu í dag.

Leikurinn var jafn framan af en undir lok fyrri hálfleiks náðu íslensku stelpurnar undirtökunum. Þær skoruðu síðustu fimm mörk fyrri hálfleiks og leiddu með sex mörkum í hálfleik, 13-7.

Grikkland skoraði fyrstu tvö mörkin í seinni hálfleik og minnkaði muninn í fjögur mörk, 13-9. Nær komust þær grísku hins vegar ekki. Ísland var alltaf með örugga foyrstu og vann á endanum átta marka sigur, 22-14.

Tinna Sól Björgvinsdóttir var markahæst í íslenska liðinu með sex mörk. Birta Rún Grétarsdóttir kom næst með fjögur mörk.

Auk Íslands og Grikklands eru Búlgaría, Serbía og Bretland í A-riðli. Næsti leikur Íslendinga er gegn Búlgörum á mánudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×